Ólafur Ragnar: Við skorum á þig að hætta!

gestur

/ #84

2016-04-18 23:22

Þverstæðurnar eru svo himinhrópandi. Ólafur Ragnar segist ætla að bjóða sig fram aftur vegna þess að enn sé í samfélaginu ákall um breytingar og nýja tíma! Hvernig í veröldinni dettur honum þá í hug að framlengja valdasetu sína í 24 ár? Fyrr má nú vera taktleysið. Aðspurður um hvort hann telji sig ómissandi segir hann „neinei“. Aðspurður um hvort hann treysti engum öðrum segir hann „neinei“. Það er alveg sama hversu oft hann segir „neinei“. Með gjörningnum einum saman er hann að svara báðum þessum spurningum mjög eindregið játandi. Forseti sem segir eitt en sýnir annað. Það er nú aldeilis til þess fallið að endurvekja traustið í samfélaginu og lægja ófriðaröldurnar. Fyrir mér er þetta ekkert annað en einhverskonar heimsmet í tækifærismennsku, sýndarmennsku og gott ef ekki mikilmennskubrjálæði. Kæri Ólafur! Þú hefur gert margt vel. Þú ert reffilegur og flottur kall. Ljóngáfaður, vel máli farinn og góður ræðumaður. En í guðanna bænum hleyptu öðrum að, gakktu í lið með nútímanum og nauðsynlegum breytingum á þessu samfélagi – það þarf lofta út úr þessari gegnsýrðu spilaborg pólitísku klækjarefanna. Með ferskum vindum. Ekki gömlum súrmat.